Hrafnaþing er einn vinsælasti spjallþáttur í íslensku sjónvarpi í dag og hefur verið um árabil. Ingvi Hrafn Jónsson hefur stjórnað þættinum í útvarpi sem og í sjónvarpi. Saga Hrafnaþings hófst á útvarpsstöðinni Matthildi seint á síðustu öld og hafa vinsældir hans aukist með hverju árinu. Hrafnaþing færði sig svo um set yfir á útvarp Sögu sem þá var hluti af Norðurljósum hf., en þegar kom að því að loka þurfti stöðinni tóku þáttgerðamenn sig til og keyptu útvarp Sögu og hófu sjálfstæðan rekstur.
Samstarfið var þó skammlíft og slitnaði uppúr því fljótlega á árinu 2005 og í kjölfarið fór Hrafnaþing yfir á Talstöðina. Þar héldur vinsældir Hrafnaþings áfram að aukast þar til tekin var sú ákvörðun að færa þáttinn yfir í sjónvarp sem hluta af dagskrá Nýju fréttastöðvarinnar eða NFS.
Í lok september árið 2006 var ákveðið að hætta rekstri NFS og hvarf því Hrafnaþing af skjánum. Nú hefur Hrafnaþing snúið aftur á skjáinn á ÍNN . Þáttastjórnandinn Ingvi Hrafn Jónsson haldur áfram að fá góða gesti til sín og að sjálfsögðu, tala tæpitungulaust um allt sem honum dettur til hugar.